10.6.2008 | 17:17
Gull og gersemi...
Ber þú hans fley.
Hver hugsar um farmannsins vegi ?
hver þekkir hans ógnþrungnu störf ?
Hann vakir, uns vermir af degi,
hver veit hversu för hans er djörf ?
Er brotsjóar fleyin hans fljóta,
hann biður í huganum hljótt.
Að fá aftur faðm þinn að njóta,
já, fallvölt er sjómannsins slóð.
Já hafið á allan hans huga,
hans líf er við hafrótið æ.
Hann treystist, hann ekkert kann buga,
hann hræðist ei ógnþrunginn sæ.
Hann einn skilur sjómannsins vegi
hann segir ei neinum sinn hag.
Og hans vegna honum ég segi,
til hamingju á sjómannadag.
Jón Þorberg Steindórsson.
****************************************
Fyrir rúmum 40 árum síðan gerði pabbi minn þennan texta og samdi lag við hann.
Dæmigert sjómannalag, sem var flutt...beint...í gegnum útvarpið af Ragnari Bjarnasyni söngvara og hljómsveit hans, á sjálfan Sjómannadaginn 1968.
Ég er búin að eiga þetta lag á gamalli spólu sem datt upp í hendurnar á mér fyrir fjölda ára.
Á þessari spólu eru líka lög eftir tónskáldið Svavar Benediktsson heimilisvin okkar og vin ömmu minnar og afa, þar sem hann spilar sjálfur og sum laganna eru sungin af okkar ástsæla, Hauk Morthens.
Ég held að þessar upptökur séu hreinlega hvergi til.
Svavar heitinn talar sjálfur inn á þessa spólu svo og Haukur Morthens líka. Virðist eins og Haukur hafi verið með þátt í útvarpinu. (held ég)
Þessi lög voru í Svavars eigu og tók hann þau sjálfur upp á gamla segulbandið sitt, fyrir bróðir hans pabba, Steindór.
Fyrir mér er þetta alger gersemi.
Ég bað Snorra bróðir (þar sem hann er með upptökuver og allar græjur) að reyna sitt besta til að lagfæra hljóðið (sem er ekki það allra besta) eins og hægt væri.
Lögin voru tekin upp á gamalt segulbandtæki með stóru spólunum. Sum ykkar muna eftir þannig segulböndum. Þau voru sko áður en kassettutækin komu til sögunnar
Snorri minn gerði það fyrir syss og það er miklu betra en á spólunni minni, en þó er það töluvert slæmt Upptakan var bara ekki í háklassa hjá honum Svavari mínum. Bara tekið beint upp á bandið með litla mígrafóninum og öll hljóð heyrðust.
En mér er alveg sama. Núna á ég þetta allt á cd og er glöð með það.
Ég vildi óska að ég gæti sett lagið hans pabba hér inn til að leyfa ykkur að heyra, en því miður þá get ég það ekki. Kann það bara hreinlega ekki, ef það er þá hægt.
Ég held nefnilega að fyrst þurfi það að fara á netið (youtube eða svol.) til að það sé mögulegt og það ætla ég ekki að gera.
Pabbi minn átti urmul af fallegum ljóðum eftir sjálfan sig og fullt af lögum líka.
Hann var snillingur í ljóðagerð.
Sumt á ég...annað er týnt því miður.
Það er geymt hjá þeim dauðu. Sorglegt.
Hans líf einkenndist ekki af reglusemi.
Og þó svo að hann hafi haldið þeim fáu eigum sem hann átti til haga í geymslu hjá móður sinni, þá var eitt sinn brotist inn í geymslurnar þar og fullt af dóti stolið.
Þar á meðal þessum fáu veraldlegu eigum sem pabbi minn átti.
Hann var maður sem kallaður var "þúsund þjala smiður".
Hann gat allt.
Allt lék í höndum hans, hvort sem það var að spila á hljóðfæri (hann spilaði á þau nokkur) yrkja lög og texta, smíða, gera við bíla svo og alla hluti, teikna, mála, hann hafði fallegustu rithönd í heimi....
Allt lék í höndunum á honum...allt... nema gæfan.
Pabbi minn átti dapra æfi lengst af og lést tæplega 35 ára gamall. Maður á besta aldri.
Hann dó fyrir rúmum 34 árum síðan eða þann 12 mars 1974.
En ég er glöð að eiga þetta lag og texta eftir pabba minn og hvað veit ég, hvað maður gerir einhverntíma við það :)
Kannski tökum við Snorri bróðir okkur til einhverntíma og pússum það upp og setjum það í nýjan búning. Hver veit
Um bloggið
Velkomin á spjallið mitt...
Bloggarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Elsku Beggi frændi minn, honum var svo sannarlega mikið gefið en fór ekki vel með það Bakkus var hans fylgifiskur eins og svo margara í okkar ætt Binna mín. Pabbi þinn var góður maður og mér þótti ofboðslega vænt um hann. Ég kann þetta lag og það er mikið fallegt. Gaman væri að heyra hann Snorra syngja það
Anna Steindórsdóttir (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 22:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.